„Óþægilegt að vita af veirunni svona nálægt“

Berglind ásamt sonum sínum, þeim Guðna Frey og Hróari Inga. Þau verða öll saman í sóttkví til 23. mars nk. Mynd/Aðsend

Berglind Kristinsdóttir í Gerðakoti í Ölfusi er ein þeirra fjölmörgu Sunnlendinga sem situr nú í sóttkví vegna COVID-19.

Berglind er í sóttkví ásamt tveimur yngstu sonum sínum en sá yngsti, sem er í 1. bekk í Grunnskólanum í Hveragerði, fékk tilskipun um að fara í sóttkví þar sem kennari við skólann greindist með COVID-19.

Á þriðja hundrað manns var skipað í tveggja vikna sóttkví, afturvirkt frá 10. mars til 23. mars. Allt skólahald hefur verið fellt niður í grunnskólanum til 23. mars.

Ekki hægt að senda soninn einan í sóttkví
„Það gaf augaleið að sex ára sonur minn gæti ekki verið lokaður af í herbergi í tvær vikur án mikilla samskipta við okkur og því ákváðum við að ég færi í sóttkví með honum, ásamt átta ára bróður hans þar sem þeir eru mikið saman,“ segir Berglind.

Berglindi fannst skiljanlega ekki gaman að fá fréttir um að sonur hennar þyrftir að fara í sóttkví. „Mér var brugðið, ekki endilega af hættunni á því að smitast heldur aðallega fannst mér mjög óþægilegt að vita af veirunni svona nálægt mér og minni fjölskyldu. Þó ég hafi tekið þessari veiru mjög alvarlega þá varð þetta skyndilega svo raunverulegt. Það er óþægileg tilfinning að vita til þess að fólk sem maður elskar gæti veikst,“ segir Berglind.

Erfitt að vera ekki öll saman
Þegar þau hjónin fengu fréttir af því að sonur þeirra þyrfti að fara í sóttkví ákváðu þau að skipta liði. „Við eigum stóra fjölskyldu og til þess að þetta hefði sem minnst áhrif á sem flesta þá ákváðum við að maðurinn minn færi af heimilinu með næst elsta soninn og komu þeir sér fyrir í sumarbústað í nágrenni við Selfoss. Elsti sonurinn fór til ömmu sinnar og ég varð eftir á heimilinu með yngstu tvo synina,“ segir Berglind.

„Það er erfitt að vera ekki öll saman en þar sem ég er með astma og gæti mögulega reynst mér erfitt að fá veiruna þá fannst okkur skynsamlegasta lausnin að reyna að koma í veg fyrir alla umgengni við mig. Litlu strákunum finnst erfitt að hitta ekki pabba sinn og stóru bræður sína en við höfum reynt að útskýra þetta fyrir þeim eins vel og við getum og virðast þeir skilja þetta. Það var samt svolítið átakanlegt að sjá þá kyssa pabba sinn í gegnum glerið á útidyrahurðinni í dag þegar pabbi þeirra færði okkur mat,“ segir Berglind.

Fjölskylda Berglindar er stór en auk sonanna fjögurra á eiginmaður Berglindar einnig dóttur af fyrra sambandi. Dóttirin er einmitt líka í sóttkví – í Reykjavík – þar sem kennari í Kvennaskólanum reyndist smitaður en hún er nemandi við skólann. Það má því segja að COVID-19 hafi mikil áhrif á alla fjölskylduna.

Gott að búa í sveit
Berglind segir að lífið í sóttkvínni sé öðruvísi en maður er vanur. „Synir mínir græða á því að ég er grunnskólakennari og starfa sem slíkur og því er ekkert slakað á hvað námið varðar. Þeim finnst mömmuskólinn mjög erfiður,“ segir Berglind en hún starfar sem kennari við Grunnskólann í Hveragerði.

„Að öðru leyti reynum við eftir bestu getu að halda rútínu. Þeir eru morgunhanar og því erum við komin snemma á fætur og svo hefst dagurinn. Við lærum, spilum, bökum og lesum bækur. Við förum aðeins út og viðrum okkur en við búum í sveit og því er enginn nálægt okkur sem kemur sér vel í þessu ástandi. Inn á milli horfa þeir á sjónvarpið á meðan ég geng um með sótthreinsibrúsann,“ segir Berglind.

Tekur einn dag í einu
Sem fyrr segir er Berglind með astma og tilheyrir því áhættuhópi fyrir COVID-19. „Ég verð að viðurkenna að mér stendur alls ekki á sama um þetta allt saman. Það dynja á manni endalausar fréttir og fyrirsagnir og það er mjög auðvelt að finna fyrir kvíða sem er fullkomlega eðlilegt en engu að síður óþægilegt. Ég reyni bara að taka einn dag í einu og þakka fyrir hvern dag sem ég og mínir nánustu eru í lagi og vona á sama tíma að við sem þjóð komumst í gegnum þetta á sem farsælastan hátt,“ segir Berglind.

„Ég vil taka það fram að engum þarf að líða illa yfir að hafa óvart orðið valdur að því að einhverjir þurfi að fara í sóttkví eða að hafa mögulega smitað annan einstakling. Hver sem er getur smitast og enginn ber einhverja sök í þessum aðstæðum, við erum öll í þessu saman,“ segir Berglind að lokum.

Samvkæmt covid.is hafa sextán manns á Suðurlandi greinst með COVID-19 veirunnar. Alls sitja 376 manns í sóttkví.

Það er nóg að gera hjá bræðrunum í sóttkvínni. Hér eru þeir að lesa og planka á sama tíma. Mynd/Aðsend
Fyrri greinEldri borgarar lentu utan vegar
Næsta greinÞrír framtíðarleikmenn skrifa undir