„Ósýnileg“ verkefni lögreglu eru fjölmörg

Mikið álag hefur verið á lögreglumenn á Selfossi í liðinni viku og fjöldi verkefna á hverjum degi verið mikill. Sýnileg verkefni lögreglu eru fjölmörg, en það eru þau „ósýnilegu“ einnig.

Í vikunni sinntu lögreglumenn þrettán slysum af ýmsum toga, allt frá bílveltum og öðrum slysum þar sem fólk hefur af ýmsum ástæðum dottið og slasast. Hálkan á samt sem áður stærstan þáttinn í þeim slysum.

Lögreglan segir fulla ástæðu til að hvetja fólk, gangandi eða akandi, að fara varlega þegar hitastigið er við frostmark. Við þær aðstæður er launung hálkunnar mest þar sem hluti vegar er flugháll en annar hluti hans í lagi.

Auk þess að sinna sýnilegum verkefnum eru „ósýnilegu“ verkefnin fjölmörg. Eitt af þeim eru birtingar dóma, ákæra og fyrirkallana. Það eru verkefni sem fer lítið fyrir og fáir vita af en eru þó svo umfangsmikil að vinnan við þau jafngildir einu stöðugildi.

Lögreglan hefur sinnt 92 útköllum frá þriðjudeginum í síðustu viku til dagsins í dag, þar af eru 54 verkefni um síðustu helgi. Auk þess eru bókaðar 62 birtingar í dagbók lögreglu, 38 vegna ákæra, 10 vegna sektargerða og 9 dómabirtingar. Það sem eftir stendur, fimm, er vegna annara birtinga.

Fyrri greinReiddist og dró upp vasahníf
Næsta greinKjörís valið fyrirtæki ársins