Ostarúllurnar vekja athygli

Á túni við Skeiðaveg, framan við Reykjabæina, standa risavaxnar ostarúllur sem vakið hafa athygli vegfarenda.

„Við erum að auglýsa fyrir Mjólkursamsöluna, þeir límdu auglýsingalímmiða á heyrúllurnar eftir að við vorum búin að rúlla og þetta kemur mjög vel út,“ sagði Rúnar Bjarnason, bóndi á Reykjum á Skeiðum, í samtali við sunnlenska.is.

„Þetta hefur vakið mikla athygli og er ágætis hraðahindrun því margir ökumenn hægja á sér til að skoða ostana. Þetta er skemmtileg tenging að setja þetta á heyrúllur því þar er verið að vitna til þess að fóðrið er upphafið að ostagerðinni. Osturinn er okkar afurð og auðvitað auglýsum við það,“ sagði Rúnar.