Öskuryk getur áfram rýrt loftgæði

Þó að eldgosið í Eyjafjallajökli liggi niðri má eiga von á að þurr aska geti tekist á loft með vindi og leitt til verri loftgæða.

Í Vík í Mýrdal voru loftgæði ekki góð á föstudag og laugardag og flokkast sem sæmileg. Einn toppur var aðfaranótt 21. maí milli klukkan 1 og 3 en eftir það voru loftgæðin góð fram undir hádegi. Þá fóru gildin aðeins að hækka og héldust þannig út daginn. Í hádeginu á laugardag kom hár toppur í Vík um klukkan 12:30 en hann hefur verið vegna foks á ösku. Á sunnudag voru loftgæði ágæt fram til klukkan 9:30 en þá hækkuðu gildin og voru yfir heilsuverndarmörkum út daginn.

Á Hvolsvelli hafa loftgæði verið góð síðan á föstudag enda veður verið hæglátt og ekkert öskufall átt sér stað. Svipaða sögu má segja af Heimalandi en þar hafa mæligildi verið vel undir heilsuverndarmörkum síðustu daga.

Mikill kraftur verður nú lagður í hreinsun á svæðinu og er sú vinna skipulögð í þjónustumiðstöðvunum.

Þjónustumiðstöðin að Heimalandi er opin milli kl. 11:30 og 13:30 mánudaga, miðvikudaga og föstudaga. Þjónustumiðstöðin í Vík í Mýrdal er opin daglega á milli kl. 11:30 og 13:30