Öskumistur í norðvestur

Gert er ráð fyrir öskumistri til norðvesturs frá eldstöðinni í dag en spáð er suðaustlægri átt og vaxandi vindi.

Með öskumistri er átt við truflun í skyggni vegna ösku, samkvæmt upplýsingum veðurstofunnar. Eitthvað öskufall er í átt að Fljótshlíð og verður áfram norðvestur af eldstöðinni.

Nóttin var róleg hjá lögreglunni á Hvolsvelli. Upp úr miðnætti dökknaði gosmökkurinn talsvert samkvæmt upplýsingum lögreglu og vindátt breyttist þegar leið á nóttina.

Lögreglan á Hvolsvelli minnir á að öll almenn umferð er bönnuð nærri eldstöðinni. Bannsvæðið nær yfir Eyjafjallajökul og hlíðar hans, Fimmvörðuháls og Mýrdalsjökul. Fólk er beðið um að virða þessar lokanir.

Fyrri greinGolfklúbburinn fékk umhverfisverðlaun
Næsta greinNágrannavarsla leiddi til fíkniefnafundar