Öskumistur í norðvestur

Gert er ráð fyrir öskumistri til norðvesturs frá eldstöðinni í dag en spáð er suðaustlægri átt og vaxandi vindi.

Með öskumistri er átt við truflun í skyggni vegna ösku, samkvæmt upplýsingum veðurstofunnar. Eitthvað öskufall er í átt að Fljótshlíð og verður áfram norðvestur af eldstöðinni.

Nóttin var róleg hjá lögreglunni á Hvolsvelli. Upp úr miðnætti dökknaði gosmökkurinn talsvert samkvæmt upplýsingum lögreglu og vindátt breyttist þegar leið á nóttina.

Lögreglan á Hvolsvelli minnir á að öll almenn umferð er bönnuð nærri eldstöðinni. Bannsvæðið nær yfir Eyjafjallajökul og hlíðar hans, Fimmvörðuháls og Mýrdalsjökul. Fólk er beðið um að virða þessar lokanir.