Öskulagið víða fleiri tugir sentimetra

Undanfarna daga hafa öskulög á Eyjafjallajökli verið könnuð og verður því verki haldið áfram í dag.

Öskulögin eru víða fleiri tugir sentimetra á þykkt og neðarlega í öskulagsbunkanum er veikt lag sem efri lög geta runnið ofaná.

Hætta er á að slíkar skriður eða flóð fari af stað í miklum rigningum en einnig er mikil hætta á að slík flóð fari af stað við það eitt að ferðast sé um þau. Takmörkuð hætta stafar af þessum flóðum í byggð. Þetta kemur fram á stöðuskýrslu Almannavarna frá því í dag.

Áfram er lokað inn í Þórsmörk og upp á Fimmvöruðuháls og hálendisvegir eru lokaðir vegna aurbleytu. Unnið er að styrkingu varnargarða við Svaðbælisá og við Markarfljót.