Öskulag veldur óvissu um heyskap

„Frá vegi sjást græn og falleg tún en þegar nær er litið er þétt lag af ösku. Á sumum bæjum verður trúlega ekkert heyjað.“

Þetta segir Grétar Már Þorkelsson, ráðunautur hjá Búnaðarsambandi Suðurlands, í Morgunblaðinu í dag.

„Við metum aðstæður dag frá degi en það liggur fyrir að bændur í Fljótshverfinu og hluta Síðunnar nái ekki fullum heyskap og þurfi ómengað hey annars staðar frá, jafnvel í Landbroti líka. Við lærðum í fyrra að þótt heyjað sé þarf jafnframt öskufrítt fóður. Líklega er búið að útvega það að mestu innan sveitarinnar,“ segir Grétar.
Túnin séu fljót að jafna sig eftir eldgosið en öskumengun sé til staðar. Verið er að taka gróðursýni og koma upplýsingum um niðurstöður til bænda. „Úrkomuleysið er farið að segja til sín. Það þýðir ekki að bera á sum túnin vegna ösku en við mælum með því að reyna slíkt með næsta ár í huga,“ segir Grétar.
Hann telur úrkomu geta breytt miklu um ástandið en undanfarið hefur verið þurrt og vindasamt.
Fyrri grein„Sumir segja að ég sé alltof steiktur”
Næsta greinSólstöðuhátíð á Þingvöllum