„Ósköp venjulegt fólk sem reynir að standa í skilum“

Sjálfboðaliðar raða í innkaupapoka sem útdeilt er fyrir jólin. Myndin er tekin árið 2020. Ljósmynd/Aðsend

Sjóðurinn góði hefur sent frá sér neyðarkall en enn eitt árið hefur metfjöldi umsókna borist sjóðnum. Sjóðurinn góði sem er hefur þann tilgang að veita aðstoð fyrir jólahátíðina til handa þeim sem ekki eiga fyrir nauðþurftum.

„Eins og staðan er í dag eru komnar um 200 umsóknir og þær eru enn að berast þó að umsóknarfrestur sé liðinn,“ segir Erla G. Sigurjónsdóttir, deildarstjóri Árnessýsludeildar Rauða krossins.

„Þeir sem sækja um eru bara ósköp venjulegt fólk sem reynir að standa í skilum og þá er bara enginn afgangur eftir. Einstæðir foreldrar, eldri borgarar, öryrkjar og fólk af erlendu bergi brotið. Fólk bara úr samfélaginu okkar.“

Það þarf kjark til að sækja um
„Okkur vantar núna að minnsta kosti 5 milljónir króna til að ná að hafa nóg fyrir þá sem eru búnir að sækja um. Það þarf kjark til að koma. Fólk þarf að sýna fjármál sín, sem maður er nú kannski ekki að bera á torg fyrir hvern sem er. Þetta tekur á bæði fyrir okkur og þann einstakling sem er í þessari stöðu. Við höfum sent út neyðarkall varðandi að fá pening í sjóðinn. Einnig minni ég á tréð í bókasafninu að setja pakka þar,“ segir Erla.

Sjóðurinn góði var settur á laggirnar árið 2008 og er samstarfsverkefni sóknarkirkja í Árnessýslu, Rauða krossins, félagsþjónustu Árborgar, félagsþjónustu Árnesþings, Hjálparstarfs kirkjunnar og ýmissa félagasamtaka í Árnessýslu.

Þeir sem vilja styrkja Sjóðinn góða geta lagt inn á eftirfarandi reikning:
325-13-301169, kennitala: 560269-2269. Margt smátt gerir eitt stórt.

Fyrri greinPólskur jólamorgun á bókasafninu
Næsta greinHrunamenn hertu tökin í lokin