Ósk Árborgar um opið samtal stendur áfram

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Bæjarráð Árborgar virðir niðurstöðu sveitarstjórnar Flóahrepps sem hafnaði á dögunum erindi Árborgar um færslu á sveitarfélagamörkum til austurs við Selfoss.

Svar Flóahrepps var rætt á síðasta bæjarráðsfundi í Árborg og þar kom fram að ósk Árborgar um opið samtal milli sveitarfélaganna um hugsanlega sameiningu standi áfram.

Í bókun bæjarráðs Árborgar er bent á að á undanförnum árum hafi verið stigin stór skref á landsvísu við sameiningar sveitarfélaga, íbúum til heilla. Árborg og Flóahreppur séu nú þegar í samvinnu um ýmsa þjónustu við íbúa samkvæmt samningum. Í opnu samtali þyrfti eðlilega að ræða alla þjónustuþætti með hag íbúa að leiðarljósi.

Færsla sveitarfélagamarkanna til austurs snýst um landsvæði í Flóahreppi sem er í eigu Árborgar. Sveitarstjórn Flóahrepps vill ekki sleppa tökum á þessu svæði og segir að veruleg verðmæti felist í landinu, einkum með tilliti til tekjuöflunar í formi fasteignagjalda af skilgreindu verslunar og þjónustusvæði.

Þrátt fyrir að hafa hafnað erindi Árborgar hyggst sveitarstjórn Flóahrepps kanna hug íbúa sinna til sameiningar sveitarfélaga næsta vor.

Fyrri greinGeldingalækur til sölu
Næsta greinApótek Suðurlands opnar lyfjaafgreiðslu á Flúðum