Ósáttur við vinnubrögð sjálfstæðismanna

Við fyrri umræðu um fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Árborgar í gær lagði Helgi Sigurður Haraldsson, bæjarfulltrúi B-lista, fram bókun þar sem hann lýsti meðal annars óánægju sinni með að áætlun ársins 2014 hafi ekki verið unnin í samvinnu við fulltrúa minnihlutans.

Helgi segist hafa leitast við að vinna allt kjörtímabilið með hagsmuni sveitarfélagsins og íbúa þess að leiðarljósi. Þar hafi ekki verið horft á hvaða flokksskírteini einstaka bæjarfulltrúar hafa uppá vasann, eða hverjir mynda hinn „svokallaða“ meirihluta í sveitarfélaginu.

„Miklu frekar að vinna að heilindum að öllum góðum málum með sameiginlega hagsmuni okkar allra sem búum þetta samfélag hér. Þannig hef ég líka litið á að aðrir bæjarfulltrúar hugsi og vinni eftir,“ segir í bókun Helga.

Við gerð fjárhagsáætlunar í fyrra, fyrir árið 2013, var því öllum bæjarfulltrúum boðið að koma að vinnu við fjárhagsáætlunargerðina að einhverju leiti og segir Helgi að það hafi verið góðir fundir þar sem málin voru rædd og margar sameiginlegar ákvarðanir teknar. Að lokum var sú áætlun samþykkt samhljóða í bæjarstjórn fyrir ári síðan.

„Það er því sorglegt og leitt til þess að hugsa að allt tal á tyllidögum, um vilja til samráðs og samvinnu, skuli ekki hafa verið viðhaft hjá sjálfstæðismönnum í Sveitarfélaginu Árborg við gerð fjárhagsáætlunar sveitarfélagsins fyrir árið 2014,“ segir Helgi og bætir við að honum hafi ekki verið boðið á neinn einasta fund við undirbúning og gerð áætlunarinnar. Honum hafi aðeins verið boðið með sólarhrings fyrirvara á fund þar sem fara átti yfir, þá þegar gerða áætlun sjálfstæðismanna. „Þetta þykir mér miður og hafði vonað að þroski og samvinna manna væri meiri.“

Helgi tók ekki afstöðu til fjárhagsáætlunarinnar sem lögð var fram á bæjarstjórnarfundinum í gær þar sem hann hafði aðeins haft hana í höndunum í tvo daga, síðan fundargögn fyrir bæjarstjórnarfundinn bárust. „Ég áskil mér því allan rétt til að fara yfir hana betur og koma með ábendingar og óskir um breytingar fyrir seinni umræðu hennar,“ segir Helgi ennfremur.

Á fundinum í gær óskaði Helgi eftir að fá afhentar upplýsingar vegna fjárhagsáætlunarinnar, ekki síðar en mánudaginn 4. nóvember. Helgi óskaði meðal annars eftir upplýsingum um allar gjaldskrárhækkanir eða -lækkanir, í prósentum og krónutölu ásamt samanburði við núverandi gjaldskrár. Einnig óskaði hann eftir upplýsingar um áhrif gjaldskrárhækkana eða -lækkana á fjárhag sveitarfélagsins fyrir hvern málaflokk og allar fjárhagsáætlanir og óskir um fjárfestingu, sem sviðstjórar og forstöðumenn sveitarfélagsins, hafa skilað inn til yfirstjórnar við undirbúning og gerð fjárhagsáætlunar. Auk þess óskar Helgi eftir að fá afhentar allar aðrar forsendur sem unnið hefur verið eftir við gerð fjárhagsáætlunarinnar.

Fyrri greinJoe Tillen snýr aftur á Selfoss
Næsta greinUppbygging ferðaþjónustu er langhlaup