Ósáttur við kaup á leirtaui af kvenfélaginu

Sveitastjórn Skeiða – og Gnúpverjahrepps samþykkti á fundi sínum að kaupa borðbúnað og skápa af Kvenfélagi Skeiðamanna. Kvenfélagið bauð borðbúnaðinn á 2,6 milljónir en hreppurinn kaupir leirtauið og skápa á 1,7 milljónir króna.

Gunnar Örn Marteinsson, fulltrúi F-listans í sveitastjórn, gagnrýndi kaupin og sagðist ekki skilja hvers vegna hreppurinn ætti að vera leggja í þennan kostnað.

RÚV greinir frá þessu

Í bókun Gunnars segist hann telja það hæpið að sveitarfélagið sé að leggja í kostnað sem þennan „þar sem veitingarekstur telst varla til þeirrar starfsemi sem sveitarfélagið á að standa í. […] Það hljómar dálítið sérstakt að kaupa eigi borðbúnað af Kvenfélagi Skeiðahrepps sem félagið ætlar væntanlega að nýta sér áfram í sinni fjáröflun.“

Kaupin voru engu að síður samþykkt með þremur atkvæðum O-listans. Tveir fulltrúar F-listans greiddu atkvæði gegn þeim.

Fyrri greinSelfyssingar steinlágu í fyrsta leik
Næsta greinÆvintýrakistan frumsýnd á sumardaginn fyrsta