Ósátt við náttúrupassa ferðamálaráðherra

„Mín skoðun varðandi gjaldtöku er ennþá sú að eitt komugjald á hvern ferðamann sem kemur til landsins sé einfaldast og eðlilegast svo þeir greiði sem koma og njóta.

Það hlýtur að vera hægt að útfæra á einfaldan hátt og ná þannig til allra. Enda eru til fordæmi um slíkt í öðrum löndum. Allir sem koma til landsins njóta náttúru Íslands sama hversu stutt þeir stoppa. Ráðherra vill náttúrupassa, Samtök ferðaþjónustunnar vilja gistináttagjald og greinin er alls ekki samstíga. Menn rökræða m.a. um almannarétt og gistináttagjald nær ekki til allra ferðamanna,“ segir Ásborg Arnþórsdóttir, ferðamálafulltrúi uppsveita Árnessýslu þegar leitað var viðbragða hjá henni vegna ákvörðunar Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, ráðherra ferðamála og ríkisstjórnarinnar að koma á náttúrupassa.

Hver passi gildir í þrjú ár og kostar hann 1500 krónur á ári fyrir Íslendinga og útlendinga. „Gjaldið, 1500 fyrir náttúrupassa er í raun ekki hátt, en ég er ekki viss um að það skili sér. Munu menn velja að kaupa passann? Eina eftirlitið verður tilviljanakennt tékk á ferðamannastöðum um landið, eitthvað kostar það ef það á að vera alvöru. Eflaust munu einhverjir ekki fást um að kaupa passann og taka sénsinn,“ segir Ásborg.

Hún segir það verða áhugavert að sjá nánari útfærslur á hugmyndinni og framkvæmdinni í tengslum við passann. „Hvar og hvernig hann verður seldur, umsýslu, eftirlit, úthlutun úr sjóðnum og svo framvegis,“ segir Ásborg að lokum.

Fyrri greinVinnuskúr eyðilagðist í rokinu
Næsta greinNý flóðahermun kynnt í sveitarstjórn