Ósammála dýralækni um útigangshross

„Ég get ekki tekið undir þau orð Sigurðar Sigurðarsonar dýralæknis að útigangshross á Suðurlandi hafi það slæmt, þeim sé ekki gefið, þau hafi ekki skjól og hafi ekki vatn.

Ég hef ekki orðið var við þetta og vísa þessu á bug,“ segir Óðinn Örn Jóhannsson, dýraeftirlitsmaður Matvælastofnunnar á Suðurlandi.

Sigurður hefur gert mikið úr ástandi útigangshrossa síðustu vikur í fjölmiðlum og vísar þar helst í nokkra staði í kringum Selfoss.

„Helsti mælikvarðinn á velferð hossa á útigangi er holdafarið en auk þess er litið til hárafars, almenns heilbrigðis og upplits hrossanna. Óhjákvæmilegt er að fóðurskortur eða illur aðbúnaður komi með tímanum niður á holdafari og útliti hrossanna. Til að tryggja samræmt mat á holdafari hrossa hefur verið gefinn út holdastigunarkvarði sem unnið hefur verið eftir undanfarinn áratug og reynst vel,“ segir Óðinn Örn í samtali við Sunnlenska.

Í reglugerð um aðbúnað útigangshrossa kemur m.a. fram að hross skulu hafa aðgang að hreinu og ómenguðu drykkjarvatni eða snjó og að hross á útigangi hafi aðgang að skjóli allan ársins hring.

Fyrri greinKFR tryggði sér sigur í blálokin
Næsta greinJón Þorsteinsson er Kjötmeistari Íslands 2016