Ósamið um nýtingu Héraðsskólahúss

Bið verður á að skipulagsfulltrúi og bygginga­fulltrúi uppsveita Árnessýslu flytji starfsemi sína í húsnæði gamla Héraðsskólans á Laugarvatni eins og unnið hefur verið að.

Búið er að gera umfangsmiklar breytingar á húsnæðinu með það í huga að skrifstofur þessara embætta flyttu þangað inn á næstunni.

Í ljós hefur komið að þrátt fyrir yfirlýsingar um vilja menntamálaráðuneytisins um að sveitar­félögin í uppsveitum og Flóa gætu leigt hluta hús­sins undir umrædda starfsemi var slíkur samningur aldrei frágenginn. Húsnæðið er í forsjá Fasteigna ríkissjóðs sem, samkvæmt heimildum Sunnlenska, telur óheppilegt fordæmi í því að leigja ekki húsnæðið í heild sinni og hefur stofnunin þrýst á sveitarfélögin að fara heldur þá leið.

Drífa Kristjánsdóttir, oddviti Bláskógabyggðar, segir slíkt vera þyngra verkefni í ljósi mikils kostnaðar, sem er samkvæmt því sem næst verður komist ekki undir 900 þúsund krónum á mánuði. Drífa hitti forsvarsmenn Fasteigna ríkissjóðs á þriðjudag og tjáði Sunnlenska fréttablaðinu að sveitarfélögin þyrfti rými til að skoða hvaða mögulegu kostir væru í stöðunni, hvort einhverjir aðilar væru reiðubúnir að koma inn í húsnæðið, fyrr væri ekki hægt að gangast við frekari skuldbindingum.

Aðspurð hvort til greina hefði komið að leigja Menntaskólanum að Laugarvatni hluta húsnæðisins undir nemendavist sagði Drífa það ekki álitið heppilegt í ljósi öryggismála.