Öryggismál í brennidepli á fundi Gullna hringborðsins

Frá fundi Gullna hringborðsins með viðbragðsaðilum. Ljósmynd/Aðsend

Gullna hringborðið kom saman á ný á Þingvöllum við upphaf sumars. Gullna hringborðið er samráðsvettvangur þeirra sem koma að ferðaþjónustu og stjórnsýslu með einum eða öðrum hætti á Gullna hringnum og er öllum fagnað í samstarfið.

Í fréttatilkynningu frá Gullna hringnum segir að stóra viðfangsefnið sé sem fyrr „hvernig ætlum við saman að takast á við fyrirsjáanlega fjölgun ferðamanna á Gullna hringnum á næstu árum”.

Viðbragðsaðilar gera mikið úr litlu
Að þessu sinni var þema fundarins öryggismál, innsti hringur kallaði saman alla helstu viðbragðsaðila á svæðinu og farið var yfir áskoranir sumarsins. Umfjöllunarefnin voru öryggi, neyðarviðbrögð, löggæsla, sjúkraflutningar, heilsugæsla, landvarsla, brunavarnir, vegakerfið og umferðaröryggi.

Mjög áhugaverð erindi voru flutt sem voru í senn upplýsandi og sláandi en ljóst er að þeir sem sinna öryggismálum á svæðinu eru að vinna mjög vel og gera mikið úr litlu miðað við fjármagn og mannafla. Sterkur samstarfsvilji kom fram og stefnt er að því að styrkja enn frekar samvinnu þeirra sem koma að öryggismálum á Gullna hringnum.

Sumarið nýtt til að rýna í stöðuna
Farið var yfir hvað gengur vel og hvað má betur fara og síðan verður sumarið nýtt til að rýna enn frekar í stöðuna miðað við þróun mála og meta hvernig bregðast þarf við. Í framhaldi af þessum fundi Gullna hringborðsins og reynslu sumarsins verða teknar saman mikilvægar upplýsingar varðandi öryggismál og miðlað áfram til þeirra sem koma að þessum málaflokkum með von um öflugt samstarf.

Fyrri greinFöstudagslagið: Mannætan New York!
Næsta greinSumarið kemur og fer en það er alltaf von