Öryggi ótryggt á Lyngdalsheiðarvegi

Sveitastjórnir Grímsnes- og Grafn­ingshrepps og Bláskógabyggðar telja mikla hættu á umferðaslysum á nýja Lyngdalsheiðarveginum vegna óhefts aðgengis búfjár við veginn.

Lyngdalsheiðarvegur ligg­ur um afrétt Grímsnesinga og Laug­vetninga en ekki er girðing meðfram veginum. Hins vegar er búið að sá grasfræjum í vegkantinn og því er ljóst að búfénaður mun sækja í beit meðfram veginum.

Ingibjörg Harðardóttir, sveitar­stjóri Grímsnes- og Grafnings­hrepps, segist hafa af þessu miklar áhyggjur. Mörg þúsund fjár sé á afréttinum auk þess sem þar séu sennilega 50-60 hross. Frágangur Vega­gerðarinnar sé að öðru leyti til fyrirmyndar en beinn og breiður vegurinn býður upp á hraðan akstur. Bendir Ingibjörg á að ef búfé rásar snögglega upp á veg geta aðvífandi bifreiðar ásamt bílstjórum og farþegum þeirra orðið fyrir miklu tjóni.

Við smölun afréttar síðasta haust gekk erfið­lega að halda fénu frá veginum og hljóp það ítrekað upp á veginn með smalahunda í kjölfarið. Sveitar­stjórnin hefur ályktað að „til þess að ekki hljótist alvarleg umferðar­slys verði að girða beggja vegna vegarins og þó sú girðing muni kosta samfélagið einhverja fjár­muni eru þeir ekkert á móti kostn­aði sem getur orðið við bílslys. Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafn­ings­hrepps fer því fram á að Vega­gerðin girði veginn af nú þegar.“

Svanur Bjarnason, umdæmis­stjóri Vegagerðarinnar, segir að mál­ið verði skoðað með opnum hug. Það kostar nokkra tugi milljóna að girða meðfram Lyng­dals­heiðarvegi en að líklega verði nýframkvæmdafé nýtt til verksins ef af verður. Það er hins vegar ekki sjálfgefið að girt sé með vegum sem liggja um afrétt og að Vega­gerðin leggi að öllu jöfnu ekki í girðingarvinnu nema að tryggt sé að einhver, og þá venjulega land­eig­endur, sjái um viðhald girð­ingarinnar.

Fyrri greinFramkvæmdir hafnar að nýju
Næsta greinGekk illa brunninn til byggða