Öryggi íbúa og gesta stefnt í voða

Sveitarstjórn Hrunamannahrepps telur að með fækkun sjúkraflutningamanna í Árnessýslu sé öryggi íbúa og gesta á Suðurlandi stórlega skert og stefnt í voða svo ekki verði við unað.

Á fundi sveitarstjórnar í gær var farið yfir málefni sjúkraflutninga á Suðurlandi en nú hefur verið tilkynnt að aðeins einn sjúkrabíll verði til taks á næturvöktum frá áramótum.

Sveitarstjórn Hrunamannahrepps beinir því til heilbrigðisráðherra og forsvarsmanna Heilbrigðisstofnunar Suðurlands hvort ekki sé tækifæri til að skoða annað rekstarfyrirkomulag sjúkraflutninga á svæðinu.

Á sama fundi voru kynnt áform Velferðarráðuneytisins um sameiningu Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja og Heilbrigðisstofnunar Suðausturlands, sem sunnlenska.is greindi frá á mánudag. Sveitarstjórn Hrunamannahrepps gerir ekki athugasemdir við þessi áform svo framarlega að þau leiði til betri þjónustu á svæðinu.

Fyrri greinKrakkaborg komið fyrir í Flóaskóla
Næsta greinSindri æfir með Esbjerg