Öryggi gangandi vegfarenda eykst til muna

Sveinn Ægir, vel upplýstur, á gangbraut við Sunnulækjarskóla. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Síðustu vikur hefur verið unnið að bættri lýsingu við gangbrautir á Selfossi. Um er að ræða ljósastaura beggja megin við 36 gangbrautir í bænum.

Að sögn Sveins Ægis Birgissonar, formanns eigna- og veitunefndar Árborgar, er um að ræða mikilvægt verkefni hvað varðar umferðaröryggi.

„Það er ánægjulegt að vinna að þessu verkefni núna en þessar gangbrautir eiga það sameiginlegt að vera með fjölförnustu gangbrautum í sveitarfélaginu og með þessu verður öryggi gangandi vegfarenda aukið til muna. Það var horft sérstaklega til gönguleiða skólabarna í fyrsta hluta þessa verkefnis. Einnig verða sett upp upplýst gangbrautarmerki í nærumhverfi grunnskóla með það að markmiði að auka umferðaröryggi skólabarna,“ sagði Sveinn Ægir í samtali við sunnlenska.is.

Sveitarfélagið sér um að lýsa upp gangbrautir í íbúðahverfum en Vegagerðin sér um þær götur sem eru á forræði hennar. Þannig hefur Vegagerðin hefur lokið við að lýsa upp gangbrautir Austurvegi og Eyravegi og til stendur að lýsa upp brautir við ströndina, á Eyrarbraut og Hásteinsvegi. Sveinn segir að sveitarfélagið muni lýsa upp fleiri gangbrautir á komandi árum, auk þess að halda áfram viðræðum við Vegagerðina um að lýsa upp fleiri gangbrautir á hennar vegum.

Fyrri greinNýliðakynning BFÁ í kvöld
Næsta greinAlvöru drama í Suðurlandsslagnum