„Öryggið ávallt í fyrirrúmi“

„Mikilvægt er að skipstjórar Herjólfs hafi vinnufrið og sæti ekki stöðugri gagnrýni og utanaðkomandi þrýstingi um að sigla við mjög erfiðar aðstæður.“

Þetta segir í fréttatilkynningu sem Eimskip sendi frá sér í dag vegna umræðu um niðurfellingu ferðar Herjólfs í Þorlákshöfn í morgun.

„Það er alfarið í höndum skipstjórans að taka ákvörðun um hvort siglt er eða ekki og einnig hvort siglt er á Landeyjahöfn eða Þorlákshöfn eftir aðstæðum. Slíka ákvörðun verður skipstjórinn einn að taka án utanaðkomandi áhrifa þeirra sem ekki bera neina ábyrgð á öryggi skipsins,“ segir í tilkynningunni.

„Eimskip hefur farið yfir ákvörðun skipstjórans um að sigla ekki í morgun með honum og styður hana fullkomlega. Umrædd ákvörðun var tekin um kl. 6:30 í morgun. Í gær var, einsog kunnugt er, aftakaveður úti fyrir og á Suðurlandi og ekkert ferðaveður, hvorki til sjós né lands. Því féllu ferðir niður í gær.“

Þegar vindmælingar eru skoðaðar á Stórhöfða sést að í raun fór vindur ekki að ganga niður að ráði þar fyrr en leið á morguninn í morgun. T.d. var vindur á Stórhöfða kl. 6:00 í morgun 34 m/s og 41 m/s í hviðum sem er sáralítið minna en var lengst af í gær og nótt. Aðstæður í Vestmanneyjum voru þannig um kl. 6:30 að það sást varla út úr augum og höfðu lítið sem ekkert lagast frá því í gær.

„Það væri ábyrgðarhlutur að fara út í slíkum aðstæðum með farþegaskip. Vert er að geta þess að flutningaskip í áætlanasiglingum felldu niður viðkomur sínar í Vestmannaeyjum í gær og í dag,“ segja forráðamenn Eimskips og bæta við að það sé erfitt hlutskipti fyrir skipstjórana á Herjólfi sem bera ábyrgð á farþegum, áhöfn og skipi að þurfa að verja allar sínar ákvarðanir fyrir fjölda fólks.

„Þannig hefur staðan því miður verið meira og minna síðan siglingar voru hafnar á Landeyjahöfn þótt ferðatíðnin sé verulega mikið meiri en áður var og allt gert sem í mannlegu valdi stendur til að halda uppi ferðum. Skipstjórarnir og aðrir starfsmenn á Herjólfi og hjá Eimskip gera allt sem í þeirra valdi stendur til að halda uppi reglulegum ferðum skipsins en öryggi farþeganna, áhafnarinnar og skipsins er og verður ávallt í fyrirrúmi við alla ákvarðanatöku. Mikilvægt er að skipstjórarnir hafi vinnufrið og sæti ekki stöðugri gagnrýni og utanaðkomandi þrýstingi um að sigla við mjög erfiðar aðstæður. Skipstjórarnir á Herjólfi eru allir mjög hæfir skipstjórnarmenn og Eimskip ber fullt traust til þeirra.“

Fyrri grein„Spennandi dagar framundan“
Næsta greinÓvenjulegur fiskdauði í botnfrosnum Stangarlæk