Örvar Rafn Hlíðdal, íþróttakennari við Flóaskóla, hlaut í gær Íslensku menntaverðlaunin 2025 sem framúrskarandi kennari fyrir framúrskarandi íþróttakennslu og eftirtektarverðan árangur í starfi.
Fimm kennarar voru tilnefndir til verðlaunanna sem voru afhent við hátíðlega athöfn á Bessastöðum.
Örvar Rafn hlýtur verðlaunin fyrir framúrskarandi íþróttakennslu, sem byggir á hvatningu, aga og samkennd. Flóaskóli hefur meðal annars unnið Skólahreysti tvisvar sinnum þrátt fyrir fámennan nemendahóp.
„Þetta er fyrst og fremst hvatning, að halda áfram að gera þá hluti sem ég er að gera og reyna jafnvel að gera þá enn betur. Fyrir mér snýst þetta meira um börnin og krakkana í Flóaskóla og þá einkum í Skólahreystivalinu. Þau leggja alla vinnuna á sig og ég vil tileinka þeim þessi verðlaun,“ sagði Örvar eftir afhendingu verðlaunanna.
Íslensku menntaverðlaunin eru veitt í fjórum flokkum. Þrjú þróunarverkefni voru tilnefnd og meðal þeirra er Gullin í grenndinni – samvinna leik og grunnskóla um nám úti í náttúrunni. Það er útinámsverkefni tveggja skóla á Selfossi, leikskólans Álfheima og grunnskólans Vallaskóla.

