Öruggt að fæða á HSu

Öruggt sé fyrir konu í eðlilegri meðgöngu og fæðingu að velja að fæða á Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Þetta er niðurstaða rannsóknar Sigrúnar Kristjánsdóttur, yfirljósmóður á HSu, úr meistaranámi í ljósmóðurfræðum við Háskóla Íslands.

Sigrún útskrifaðist úr náminu í júní sl. Meistaraverkefni hennar heitir „Er öruggt að fæða í heimabyggð? Útkoma úr fæðingum á Heilbrigðisstofnun Suðurlands árið 2010“.

Kveikjan að rannsókninni varð í kjölfar kreppunnar eftir að ljóst varð að breyting yrði á þjónustustigi fæðingadeildar HSu. Haustið 2009 kom í ljós að ekki fengist áframhaldandi fjármagn til HSu til að halda áfram vöktum fæðinga- og svæfingarlækna. Frá og með áramótunum 2009-2010 voru vaktir þessara lækna aflagðar og tilkynnt að um áramótin yrði breyting á þjónustustigi á barneignarþjónustu á Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Þjónustustig fæðingadeildarinnar breyttist þannig að einungis konum í eðlilegri meðgöngu og fæðingu áttu kost á því að fæða á HSu.

Markmið rannsóknar Sigrúnar var að skoða útkomur úr fæðingum á Heilbrigðisstofnun Suðurlands árið 2010, eftir breytingar á þjónustustigi. Áhersla var lögð á gæðavísa eins og fæðingarmáta, verkjameðferð í fæðingu, áverka á spöng, blæðingu eftir fæðingu, örvun í fæðingu, flutning í fæðingu, apgar stig nýbura eftir fæðingu og vökudeildarinnlagnir nýbura eftir fæðingu.

Rannsóknin var afturvirk lýsandi rannsókn þar sem upplýsinga var aflað úr sjúkraskýrslum 112 kvenna sem fyrirfram ráðgerðu að fæða á Heilbrigðisstofnun Suðurlands árið 2010.

Við söfnun gagna var notaður skráningarlisti sem notaður hefur verið í sambærilegum rannsóknum á útkomum heimafæðinga á Íslandi og í Skandinavíu. Listinn var þýddur og aðlagaður íslenskum aðstæðum fyrir rannsókn á heimafæðingum og viðbætur gerðar fyrir aðstæður í þessari rannsókn.

Niðurstöður rannsóknarinnar voru að útkoma úr fæðingum á HSu árið 2010 var góð þegar litið er til sambærilegra fæðingarstaða hérlendis og erlendis. Mikill meirihluti kvennanna fæddi eðlilega eða 92%. Aðeins 3,6% þeirra fæddu með keisaraskurði og tíðni áhaldafæðinga var 4,5%. Flutningstíðni kvenna á hærra þjónustustig var sambærileg við flutningstíðni í öðrum sambærilegum rannsóknum. Útkoma barna í rannsókninni var einnig góð, ekkert barn fékk minna en 7 í apgar eftir 5 mín. og ekkert barn þurfti endurlífgun eftir fæðingu.

Niðurstöður rannsóknarinnar gáfu til kynna að Þær hjálpa þunguðum konum á Suðurlandi og fjölskyldum þeirra að taka upplýsta ákvörðun um val á fæðingarstað. Rannsóknin er hvatning til að samræma og vanda skráningu svo hægt sé að fylgjast með árangri og bera saman þá barneignarþjónustu sem í boði er á Íslandi. Það væri hægt að gera með stórri framvirkri samanburðarrannsókn yfir lengra tímabil þar sem fleiri stofnanir tækju þátt.

Heimasíða HSu

Fyrri greinRisatónleikar á Selfossi í kvöld
Næsta greinArnar verður stopp í mánuð