Örtröð í Bónus

Verslun Bónus við Austurveg á Selfossi lokar í dag og eru allar vörur í búðinni með 30% afslætti. Örtröð var við verslunina þegar hún opnaði kl. 9 í morgun.

Búðin fylltist strax af fólki sem kepptist við að gera góð kaup og fljótlega mynduðust raðir af fólki sem biðu eftir innkaupakörfum. Sumir björguðu sér reyndar og söfnuðu vörum í mjólkurgrindurnar sem tæmdust fljótt í kælinum.

Ný verslun Bónus opnar við Larsenstræti á laugardaginn.