Örnefnaskilti afhjúpað við Strandarkirkju

Örnefnaskilti var afhjúpað við Strandarkirkju í Selvogi í blíðskaparveðri sl. laugardag að viðstöddum sóknarbörnum og fróðleiksfúsum ferðamönnum.

Um er að ræða skilti þar er gefur að líta bæjarnöfn, örnefni og minjar í Selvogi. Kortið var gert með dyggri aðstoð heimamanna, þeirra Þórðar Sveinssonar frá Bjargi, Þórarins Snorrasonar á Vogsósum og Kristófers heitins Bjarnasonar frá Þorkelsgerði og endurspeglar sögu þessa fjölmenna og merka útvegsbændasamfélags í gegnum aldirnar.

Eftir afhjúpun skiltisins var boðið upp á leiðsögn um Selvoginn undir handleiðslu Þórarins á Vogsósum og Jóhanns Davíðssonar í ferðafélaginu Ferlir.

Tilgangurinn með gerð uppdráttarins var að festa á blað tilvist og staðsetningar örnefna á þessum merkilega, en gleymda, útvegsbæ á meðan enn voru til menn er mundu hvorutveggja – komandi kynslóðum til ánægju og fróðleiks.

Öll vinna var endurgjaldslaus, en Sveitarfélagið Ölfus greiddi fyrir prentun uppdráttarins og Biskupsstofa kostaði gerð skiltisins.

Skiltastandurinn var hannaður og smíðaður hjá Martak h/f í Grindavík og skiltaplatan prentuð á plasthjúpaða álplötu hjá Stapaprent h/f í Reykjanesbæ.

Heimasíða Ferlis