Örmagna göngumaður á Fimmvörðuhálsi

Björgunarsveitir á svæðinu frá Hellu að Vík eru nú á leið að sækja erlendan göngumann sem er örmagna á gönguleiðinni yfir Fimmvörðuháls. Maðurinn hringdi í Neyðarlínu og óskaði eftir aðstoð.

Gat hann gefið nákvæmar upplýsingar um staðsetningu sína þar sem hann sá númeraða stiku. Björgunarsveitin Dagrenning frá Hvolsvelli settu upp og merktu stikurnar fyrir nokkrum misserum og er nákvæm staðsetning hverrar stiku skráð. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem þær koma að góðum notum við að staðsetja fólk á þessari leið.

Maðurinn er staddur ofan við snjólínu, við brúna yfir Skógaá, en ákveðið var að sækja að staðnum úr fleiri en einni átt þar sem svartaþoka og ekkert skyggni er á hálsinum þessa stundina.

Björgunarsveitir fara því á bílum og vélsleðum yfir Eyjafjallajökul, upp frá Skógum og verið er að skoða hvort senda eigi hóp vestur Mýrdalsjökul.

Fyrri greinBaðlón og hótel í Hveradölum
Næsta greinÁtta verðlaun til Sunnlendinga