Orkugarður opnaður á Sólheimum

Í dag verður formlega opnaður Orkugarður á Sólheimum í Grímsnesi í tengslum við 10 ára afmæli Sesseljuhúss.

Hugmyndin á bakvið garðinn er að skapa fræðslu- og skemmtigarð um endurnýtanlega orkugjafa.

Í tilefni tímamótanna mun Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra flytja ávarp kl. 16 og því búnu mun Árni Friðriksson arkitekt mun fjalla um byggingu Sesseljuhúss auk þess sem Andri Snær Magnason mun fjalla um umhverfismál.

Sesseljuhús var tímamótabygging og fyrsta byggingin sem byggð var eftir evrópskum stöðlum um umhverfisvænar byggingar. Í dag fer fram fjölbreytt starfsemi á vegum Sesseljuhúss og má þar nefna fjölbreytt fræðslustarf, fyrirlestra, háskólanám er í boði fyrir bandaríska nemendur, lýðræðisbúðir fyrir ungt fólk frá Evrópu, auk almennrar fræðslu um umhverfis- og mannrækt.

Nýjasta verkefni Sesseljuhúss er Orkugarður og verður hann bæði innan- og utandyra og er miðstöð hans í Sesseljuhúsi umhverfissetri. Innandyra er sýning um endurnýjanlega orkugjafa og fræðsluefni tengt orkumálum á Íslandi og á Sólheimum.

Utandyra er hægt að kynna sér eftirfarandi orkugjafa;

1. sólarorku: sólarsellur eru uppsettar á þaki Sesseljuhúss.

2. vindorku: vindmylla hefur verið sett upp utan við Sesseljuhús.

3. jarðvarma: Sólheimar hafa sína eigin smáhitaveitu sem áætlað er að sýni nýtingu jarðvarma.

4. vatnsorku: Smávirkjun hefur verið gerð í læk sem rennur í gegnum byggðina og setti Iðnskóli Hafnarfjarðar nýverið upp hjól sem framleiðir rafmagn.

5. líforku: á Sólheimum er fallegur skógur og jarðgerðarvél sem forvinnur lífrænar leifar til áburðar eða framleiðslu eldsneytis.

Styrktaraðilar Orkugarðsins eru Landsvirkjun, Umhverfisráðuneyti, Landsbankinn, Alcoa Fjarðarál og Iðnskólinn í Hafnarfirði.

Fyrri greinTónleikar með Ellen og Eyþór og fræðsla um vistvænan lífsstíl
Næsta greinNauðgun kærð á Bestu útihátíðinni