Orkufyrirtæki hætti að berjast við vindmyllur

Hvergerðingar og aðrir fylgjendur skilyrðislausrar verndunar Bitru, Reykjadals og Grænsdals fagna tillögu til þingsályktunar um vernd og nýtingu náttúrusvæða sem gerir ráð fyrir verndun á umræddu svæði.

Ályktun þess efnis var samþykkt samhljóða af bæjarráði Hveragerðis í morgun.

“Með því er sérstaða dalanna og svæðisins hér ofan byggðar í Hveragerði viðurkennd en fyrir þessu höfum við barist allt frá því fyrsta hugmynd um Bitruvirkjun kom fram. Órofa samstaða Hvergerðinga hefur án vafa átt stóran þátt í þessari niðurstöðu en við hlið okkar hafa staðið öll samtök sem láta sig náttúruvernd einhverju skipta á landinu. Slík samstaða er dýrmæt og fyrir það viljum við þakka,” segir meðal annars í ályktuninni.

Bæjarráð tekur enn fremur fram að mikilvægt sé að allir standi þétt að baki þessari niðurstöðu. Virkjunarkostir sem enginn ágreiningur sé um séu nægir í nágrenni Hveragerðis þó að þetta svæði verði verndað. Hverahlíð, Gráuhnjúkar og Meitill eru þar efst á blaði.

“Nú er brýnt að orkuöflunarfyrirtæki horfi til þeirra staða þar sem samstaða er um að virkja en haldi ekki áfram að berjast við vindmyllur í vonlausri baráttu um virkjanir á stöðum sem mikill meirihluti þjóðarinnar vill vernda. Slík umræða er einungis til þess fallin að hindra að sátt náist meðal þjóðarinnar um verndar- og nýtingaráætlun um fallvötn og jarðhita,” segir í ályktun bæjarráðs.