Orðsporið er fjöregg landbúnaðarins

Frá setningu Búnaðarþings í morgun. Ljósmynd: Stjórnarráðið/Sigurjón Ragnar

Búnaðarþing 2023 var sett í morgun. Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra flutti ávarp við það tilefni þar sem farið var yfir þau atriði sem sett hafa svip sinn á nýliðið landbúnaðarár og fór jafnframt yfir þau verkefni sem framundan eru.

Meðal þess sem ráðherra fjallaði um var sérstakur stuðningur sem veittur var til innlends landbúnaðar upp á 3,2 milljarða króna og var ætlað að koma til móts við þær sérstöku aðstæður sem sköpuðust m.a. af innrás Rússa í Úkraínu. Einnig verður unnið að því að skapa skilyrði fyrir aukna kornrækt á Íslandi sem er forsenda fyrir auknu fæðuöryggi þjóðarinnar.

Í nýkynntri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar kemur fram að framlög til landbúnaðar verða aukin og þeim framlögum verður varið til að hrinda aðgerðaáætlun um aukna kornrækt í framkvæmd.

Byltingarkennd tækni í plöntukynbótum
Í máli ráðherra kom einnig fram að byltingarkennd tækni í plöntukynbótum verður nýtt á næstunni til að hraða erfðaframförum svo um munar. Búvísindafólk við landbúnaðarháskólann muni, í samstarfi við erlenda sérfræðinga, nýta erfðavísindi til að aðlaga bygg og hveiti að íslenskum aðstæðum hraðar en nokkurn óraði fyrir að væri gerlegt fyrir fáum árum. Fyrstu kynbótalínurnar úr þessum nýju verkefnum koma til landsins næsta vor.

Dilkakjötið í hóp með Búrgundarvínum og parmaskinkum
Ráðherra rifjaði einnig upp að síðasta vetur fundust erfðavísar sem veita vernd gegn riðu og gefa fyrirheit um að lokasigur gegn þeim vágesti sé raunhæfur. Að auki innleiddu kúabændur erfðamengisúrval í mjólkurkúm á síðasta ári og tóku þannig markviss skref til að auka samkeppnishæfni en jafnframt standa vörð um erfðaauðlindir innlendra búfjárstofna. Einnig fékk íslenskt lambakjöt upprunavottun frá Evrópusambandinu á dögunum, nokkuð sem unnið hefur verið að í mörg ár.

„Þannig skipar dilkakjötið okkar sér í hóp með Búrgundarvínum, parmaskinkum og ótal fleiri landbúnaðarvörum í hæsta gæðaflokki,“ sagði matvælaráðherra. „Verkefnið hlýtur að vera núna að nýta þetta sem leið til þess að treysta enn frekar orðspor lambakjötsins sem gæðavöru. Það orðspor er fjöregg landbúnaðarins og þarf að vernda“ […] „Þá er mikilvægt að afurðafyrirtæki bænda gangi fram fyrir skjöldu með því að veita nákvæmar upplýsingar um uppruna því að það er það sem neytendur óska eftir: Að geta tekið upplýstar ákvarðanir en á síðasta ári var upprunamerkingin „Íslenskt staðfest“ kynnt og hana má nú sjá á innlendum vörum“.

„Þetta fyrsta ár matvælaráðuneytisins hefur verið viðburðaríkt og hefur styrkt mig í þeirri trú að þrátt fyrir áskoranir í matvælakeðjunni er framtíðin björt fyrir íslenskan landbúnað. Tækifærin munu hins vegar ekki raungerast af sjálfu sér, það þarf skýra sýn og markviss skref,“ sagði matvælaráðherra við setningu þingsins.

Fyrri greinÓskir Hellubúa um þvottaplan rætast
Næsta greinHéraðsþing HSK á Hellu tókst vel