Orðin forfallinn prjónafíkill

Selfyssingurinn Dóra Stephensen prjónaði sína fyrstu lopapeysu sumarið 2010 og hefur ekki lagt frá sér prjónana síðan. Hún heldur úti Facebook-síðunni Knitbook.

Dóra býr í Hafnarfirði en hún er hjúkrunarfræðingur í ljósmóðurnámi. Hún semur sínar eigin prjónauppskriftir og birtir á facebook-síðunni Knitbook sem hún setti upp fyrir tæpu ári.

„Ég er komin með nokkrar uppskriftir þarna inn. Sláin Reykjavík er ný en ég byrjaði á henni í haust,” segir Dóra í viðtali við Fréttablaðið en hún bjó til uppskriftina frá grunni.

„Ég prjóna hana úr léttlopa en ég nota íslenska lopann í allt sem ég prjóna. Ég hef reynt að fara aðrar leiðir en að prjóna hefðbundnar lopapeysur og hef gert aðeins af barnafötum, en aðallega kvenfötum,” segir Dóra. „Oft fæ ég hugmyndir út frá einhverri flík sem er kannski ekki einu sinni prjónaflík, svo vindur hún upp á sig og útkoman verður allt öðruvísi.”

Dóra segist vera orðin forfallinn prjónafíkill þó að prjónaferillinn sé ekki langur í árum talið. Hún lærði að prjóna sem krakki en þá hafi frammistaðan ekki lofað miklu. „Ég prjónaði kannski hálfan sokk í skóla,” segir hún hlæjandi.

„Ég fór reyndar á prjónanámskeið fyrir átta árum en hætti alveg að prjóna þegar ég fór í hjúkrunarnámið. Eftir að ég prjónaði svo fyrstu lopapeysuna í fyrrasumar hafa prjónarnir ekki stoppað og ég er alls ekki hætt.”

Knitbook