Óprúttnir skiltaþjófar í Flóanum

Einhverjir óprúttnir náungar hafa stolið skilti frá Flóahreppi sem var staðsett á sveitarfélagamörkum Árborgar og Flóahrepps, rétt austan við Europris.

Talið er að því hafi verið stolið helgina 10.-12. desember sl. Skiltið bauð vegfarendur velkomna í Flóahrepp og þess er saknað og ramminn stendur auður eins og gluggi á eyðibýli.

Þeir sem geta gefið upplýsingar um skiltið geta snúið sér til skrifstofu hreppsins.