Opnunarhátíð Sigurhæða á laugardag

Strókur er til húsa á Skólavöllum 1 á Selfossi. sunnlenska.is/Jóhanna SH

Opnunarhátíð Sigurhæða – þjónustu við þolendur kynbundins ofbeldis á Suðurlandi – verður laugardaginn 20. mars kl. 16 í Listasafni Árnesinga í Hveragerði.

Á þessum fagnaðarfundi munu taka til máls Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra, Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri Hveragerðis, Guðrún Lára Magnúsdóttir forseti Soroptimistasambands Íslands, Svava Davíðsdóttir, félagsmálastjóri Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu og Margrét Harpa Garðarsdóttir, staðgengill lögreglustjórans á Suðurlandi.

Einnig verður frumsýnt kynningarmyndband Sigurhæða og Jazzsveitin Kvarts mun flytja tónverkið Hlýja fyrir SIGURHÆÐIR nr. 1. Kynnir er Hildur Jónsdóttir verkefnisstjóri Sigurhæða.

Sigurhæðir er fyrsta úrræðið sinnar tegundar sem tekur til starfa á Suðurlandi og er það ætlað konum 18 ára og eldri. Þetta faglega meðferðarstarf er nýjung og viðbót sé miðað við að öðru leyti sambærileg þjónustuúrræði við þolendur kynbundins ofbeldis hér á landi. Öll þjónusta Sigurhæða er endurgjaldslaus.

Starfsemi Sigurhæða hefst mánudaginn 22. mars og verður til húsa að Skólavöllum 1, Selfossi. Þangað geta konur og aðstandendur þeirra komið, hringt eða pantað viðtal á heimasíðu Sigurhæða, sigurhaedir. is. Síminn er 834 55 66.

Fyrri greinDýpra niður á klöpp en áður var talið
Næsta greinHamar tapaði toppslagnum – Hrunamenn steinlágu