Opnunarhátíð á laugardaginn

Ljósmynd/Aðsend

Penninn Eymundsson opnar nýja og stærri verslun í glænýjum verslunarkjarna við Larsenstræti á Selfossi á laugardaginn. Auk verslunar Pennans Eymundsson verða tískuvöruverslunin Gina Tricot og barnafataverslunin Emil&Lína opnaðar í verslunarkjarnanum. Í sumar er svo gert ráð fyrir að H-verslun opni í sama verslunarkjarna.

Verslanirnar bjóða því til veglegrar opnunarhátíð á laugardaginn og hefst hún kl. 11:45 á því að nafn verslunarkjarnans verður tilkynnt. Verslanirnar opna síðan kl. 12:00 og eftir hádegi munu Skítamórall og Sirkus Íslands skemmta. Öllum gestkomandi verður boðið upp á kaffi í boði Sjöstrand.

„Okkur hefur lengi langað til að gera vöruúrval okkar aðgengilegra á Selfossi en samfélagið þar fer sívaxandi. Við opnuðum litla búð í nýja miðbænum árið 2023 og reiknuðum með að fá stærra pláss þar til framtíðar,“ segir Ingimar Jónsson, forstjóri Pennans Eymundsson. Hann segir að það hafi hins vegar dregist.

„Þannig að þegar okkur bauðst að fá 350 fermetra pláss í nýju húsi við Larsenstræti ákváðum við að stökkva á það og loka litlu búðinni. Auk þess að bjóða upp á fjölbreytt úrval bóka, ritfanga og gjafavara verður mikið úrval af barnabókum, leikföngum, litabókum og vörum fyrir börn enda engin þannig verslun á Selfoss,“ segir Ingimar ennfremur.

Fyrri greinBerserkir unnu þrjá Íslandsmeistaratitla
Næsta greinHrafnhildur Ýr dúxaði í FSu