Opnað fyrir bókanir á bílastæðum í Landmannalaugum

Landmannalaugar. Ljósmynd/Umhverfisstofnun

Umhverfisstofnun hefur opnað fyrir bókanir á bílastæðum við Landmannalaugar fyrir sumarið. Frá 20. júní til 15. september á milli klukkan 8 og 15 verður nauðsynlegt að bóka bílastæði og greiða þjónustugjald fyrirfram, áður en komið er til Landmannalauga akandi á eigin vegum.

Um er að ræða álagsstýringu á svæðinu en samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun hefur bílaumferð inn í Landmannalaugar yfir miðjan dag verið meiri en það sem innviðir svæðisins geta ráðið við. Daglega hefur það leitt af sér miklar umferðarteppur og kraðak á vegum og bílastæðum, með tilheyrandi ónæði og neikvæðum áhrifum á bæði umhverfi Landmannalauga og upplifun gesta.

Markmið bókunarkerfisins að reyna að dreifa bílaumferð og draga úr álagstoppum. Að meðaltali komu rúmlega 300 bílar á dag að Landmannalaugum sumarið 2023.

Í sumar verður gjaldið fyrir hvern fólksbíl 450 krónur pg 600 krónur fyrir 6-9 sæta bíla en hærra verð er greitt fyrir stærri bíla. Ekki þarf að greiða þjónustugjald ef mætt er á svæðið á öðrum tíma en milli kl. 8 og 15.

Rútur og aðrir ferðaþjónustuaðilar þurfa ekki að bóka fyrirfram í sumar, en munu þó þurfa að greiða þjónustugjald ef komið er inn á svæðið á milli kl. 8 og 15.

Fyrri greinStokkseyringar snúa aftur – Óskar ráðinn þjálfari
Næsta greinFólk beðið um að tilkynna um dauða fugla