Opna þjónustuskrifstofu á Selfossi

Fasteignasalan Bær sem er með sínar höfuðstöðvar á höfuðborgarsvæðinu hefur opnað þjónustuskrifstofu fyrir Suðurland á Austurvegi 6 Selfossi.

Búið er að ráða Hafstein Þorvaldsson, viðskiptafræðing, sem mun einbeita sér að því að þjónusta Suðurland.

Að sögn Snorra Sigurfinnssonar fasteignasala, annars eiganda fasteignasölunnar er fasteignamarkaðurinn að glæðast.

“Við höfum upplifað aukningu á höfuðborgarsvæðinu síðastliðið ár og um þessar mundir upplifum við slíkt hið sama hér austan fjalls. Markaðurinn er hægt og bítandi að taka við sér. Ekki með neinum látum en þetta er í rétta átt. Það er þess vegna sem við viljum bæta þjónustuna á Suðurlandi með því að opna skrifstofu á Selfossi,” sagði Snorri í samtali við sunnlenska.is.