Opinn dagur á Úlfljótsvatni á laugardag

Þessi flotti skátahópur lagði í gær af stað í sólarhrings göngu frá Úlfljótsvatni en það er hluti af þeirri fjölbreyttu dagskrá sem þátttakendur á landsmóti skáta geta valið sér um.

Í ferðaveröld er hægt að velja um allt frá stuttum dagsferðum upp í sólarhringsferðir fyrir þau ævintýragjörnu en þessar ferðir líða skátum yfirleitt mjög seint úr minni.

Á morgun, laugardag, mun vera svokallaður opinn dagur á landsmóti þar sem gestum og gangandi gefst tækifæri á að taka þátt í dagskrá og skoða tjaldbúðirnar sem skátarnir hafa búið í síðastliðna viku. Forseti Íslands mun mæta á Úlfljótsvatn og taka þátt í deginum.

Þetta er tilvalið tækifæri fyrir fjölskylduna að koma með tjaldið sitt í fjölskyldubúðir og taka þátt en um kvöldið munu skátarnir halda hátíðarkvöldvöku og mun Ingó Veðurguð slíta kvöldinu með brekkusöng.