Opið hús í nýbyggingu Hsu

Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Síðasti hluti nýrrar viðbyggingar við Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi verður formlega tekinn í notkun í dag.

Að lokinni vígsluathöfn verður opið hús fyrir almenning til að skoða nýbygginguna frá kl. 16:30 – 18:00.

Með þessu fær heilsugæslan nýtt og mun rúmbetra húsnæði á 1. hæð og endurhæfingaraðstaða verður stórbætt. Unnið er að undirbúningi endurbóta á eldri byggingunni þar sem bætt verður aðstaða fyrir sjúkrahús, sérfræðimóttökur og skrifstofur. Stefnt er að því að hefja nauðsynlegar breytingar á eldri byggingunni næsta haust.

Þetta er lokahluti nýbyggingarinnar en framkvæmdir við hana hófust síðla árs 2004. Byggingin er alls 5.400 fermetrar og áætlaður heildarkostnaður við hana er um 1,7 milljarður króna sem er nálægt áætluðum kostnaði.

Eldra húsnæði Heilbrigðisstofnunarinnar á Selfossi var um 4.500 fermetrar, þannig að um tvöföldun er að ræða með tilkomu nýju byggingarinnar.

Fyrri greinSebastian: Hugsanlega hættur sem þjálfari
Næsta greinMikið hagsmunamál í höfn