Opið hús á sumardaginn fyrsta

Garðyrkjuskólinn að Reykjum í Ölfusi. Ljósmynd/Mats Wibe Lund

Eins á áralöng hefð er fyrir standa nemendur Garðyrkjuskólans að Reykjum í Ölfusi fyrir opnu húsi og hátíðahöldum á sumardaginn fyrsta. Almenningi er boðið að skoða skólann og njóta gróðursins í húsakynnum skólans.

Opna húsið er milli klukkan 10:00 og 17:00 en kl. 13:15 verður hátíðardagskrá með forseta Íslands þar sem garðyrkjuverðlaun, umhverfisverðlaun Hveragerðis og umhverfisverðlaun Ölfuss 2017 verða afhent.

Önnur dagskrá verður einnig um allt svæði skólans, meðal annars:

Kynning verður á náminu og skólanum og fólki gefst kostur á að skoða allar byggingar skólans, gróðurhús, tilraunahús, skrúðgarðyrkjuhús, stærstu banana plantekru sem staðsett er í Evrópu osfrv.

Sala á ýmsum framleiðsluvörum garðyrkjunnar, nýsprottið hnúðkál ræktað af nemendum, tómatar, gúrkur, paprikur, kryddjurtir í pottum, afskorin blóm og sumarblóm ofl.

Gefið er út tímarit garðyrkjunema, Vorboðinn, með áhugaverðu efni tengdu garðyrkju á Íslandi og verður því dreift frítt til lesningar.

Fjöldi fyrirtækja og einstaklinga verða með kynningar á vörum sínum tengdum garðyrkju, s.s. bókum, hænsnakofum, vélum, gróðurhúsum ofl.

Kaffi og vöfflur verða seldar í matsal skólans, pylsur, ís og aðrar veitingar verða einnig til sölu á svæðinu.

Ýmsar skemmtilegar uppákomur s.s. andlitsmálning fyrir börn, ratleikur og getraunir og hestar. Einnig gefst börnum kostur á að sá fyrir eigin kryddjurtum og taka með sér heim.

Fyrri greinÖlvaður ökumaður við Landmannahelli
Næsta greinBjarni Harðar með bókauppboð í Reykjavík