Opið hús á Sólvöllum á sunnudaginn

Í dag 1.nóvember fagna Sólvellir, heimili aldraðra á Eyrarbakka, 25 ára afmæli. Af því tilefni verður opið hús fyrir gesti og gangandi sunnudaginn 4. nóvember næstkomandi frá kl. 14-16.

Það var haustið 1985 sem samtök áhugamanna um dvalarheimili á Eyrarbakka voru stofnuð og tveimur árum síðar eða þann 1. nóvember 1987 fluttu fyrstu heimilismenn inn á dvalarheimilið Sólvelli.

Fjöldi manns hefur komið að uppbyggingu heimilisins í gegnum árin og hefur starfsemi þess mætt mikilli velvild Eyrbekkinga og annarra. Fjölmargir hafa styrkt heimilið með einum eða öðrum hætti en að öðrum ólöstuðum má þó segja að Kvenfélag Eyrarbakka sé einn af sterkustu bakhjörlum heimilins.

Fljótlega eftir opnun Sólvalla kom í ljós að húsnæðið var ekki mjög hentug rekstrareining og var því ráðist í viðbyggingu árið 1990. Hún var svo tekin í gagnið þann 1. maí 1993. Árið 2007 var svo enn ákveðið að ráðast í viðbyggingu við heimilið og var fyrsta skóflustungan að nýrri álmu tekin í nóvember það ár.

Með þeirri viðbyggingu, sem tekin var í gagnið í desember 2009, varð mikil breyting á aðbúnaði bæði heimilismanna og starfsfólks, fjölnota salur í kjallara bættist við ásamt nýju þvottahúsi og 8 nýjum herbergjum.

Eins og áður segir komu fjölmargir einstaklingar og fyrirtæki að stofnun heimilisins á sínum tíma en upphafleg rekstrarstjórn heimilisins var skipuð þeim Ása Markúsi Þórðarsyni, Ingu Láru Baldvinsdóttur og Jóhanni Jóhannssyni. Ási starfaði í stjórninni nánast þar til hann lést árið 2002 en Inga Lára og Jóhann létu af störfum á síðasta aðalfundi. Í stjórn Sólvalla eru nú Guðjón Guðmundsson, María Gestsdóttir og Sandra Dís Hafþórsdóttir.

Fyrri greinEkkert ferðaveður milli Seljalands og Víkur
Næsta greinKynningarfundir Samfylkingar fyrir flokksval