Opið hús á þrítugri Örkinni

Hótel Örk í Hveragerði var opnað árið 1986 og fagnar því 30 ára afmæli um þessar mundir. Af því tilefni verður slegið upp afmælishátíð um næstu helgi en opið hús verður laugardaginn 10. september.

Á opna húsinu verður afmælisgestum meðal annars boðið að gæða sér á kaffi og kökum, spreyta sig í lasertag frá Skemmtigarðinum og njóta töfrasýningar Einars einstaka.

Í tilefni afmælisins var lógó hótelsins endurnýjað og farið í miklar endurbætur á fyrstu hæð hótelsins í byrjun árs. Móttakan var endurnýjuð, auk þess sem veitingastaðurinn var tekinn í gegn og í kjölfarið opnaði þar HVER Restaurant. HVER býður upp á vandaðan og fjölbreyttan matseðil í hlýlegu umhverfi þar sem áhersla er lögð á gæðahráefni og framúrskarandi þjónustu.

Þrátt fyrir breytingar á Hótel Örk munu fastir liðir verða á sínum stað, en þar má nefna jólahlaðborð og svo auðvitað Sparidaga eldri borgara sem hafa verið árlegur viðburður í 26 ár af þeim 30 árum sem hótelið hefur verið starfrækt. Þá njóta eldri borgarar, víðsvegar að af landinu, fjölbreyttrar dagskrár í fallegu umhverfi.

Á Hótel Örk eru 85 herbergi, sundlaug, heitir pottar, leikherbergi og golfvöllur. Einnig er fjölbreytt afþreying í boði í nágrenni hótelsins og einstök náttúrufegurð.