Önnur velta á sama stað

Bíll með erlendum ferðamönnum valt á Laugarvatnsvegi, milli Laugarvatns og Úthlíðar, um klukkan tíu í gærkvöldi.

Þrír voru í bifreiðinni og var einn fluttur á sjúkrahús en hann kvartaði undan eymslum í hálsi.

Slysið átti sér stað á nákvæmlega sama stað og önnur bílvelta síðastliðinn laugardag, þegar japanskir ferðamenn endastungu bíl sínum út fyrir veg.

Þarna er vegavinnusvæði með grófum malarkafla en varúðarskilti vegna vegavinnunnar er eingöngu á íslensku.