Önnur eins aðstaða vandfundin

Friðrik Ingi Friðriksson, eigandi Aflvéla og Búvéla og Helgi S. Haraldsson, rekstrarstjóri á Selfossi, við opnun verslunarinnar í haust. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Í haust fluttu Aflvélar ehf og Búvélar ehf á Selfossi í nýtt og glæsilegt húsnæði að Gagnheiði 35. Að sögn Helga S. Haraldssonar, rekstrarstjóra Aflvéla/Búvéla á Selfossi er mikil ánægja hjá starfsfólki og viðskiptavinum með nýju aðstöðuna og alla umgjörð á nýja staðnum.

„Þetta eru mjög glæsileg húsakynni og ég held að það megi með sanni segja að betri aðstaða til sölu og sýningar nýrra landbúnaðarvéla sé vandfundin á Íslandi,“ sagði Helgi í samtali við sunnlenska.is. Fjórtán starfsmenn starfa hjá fyrirtækinu á Selfossi og er Helgi nýlega tekinn við sem rekstrarstjóri, eftir sextán ára starf sem svæðisstjóri Eimskipa á Suðurlandi.

Í Gagnheiðinni má finna verslun og glæsilegan sýningarsal. Þar sem inni eru dráttarvélar, heyvinnutæki, verslunarvara og varahlutasala. Einnig er glæsilegt útisvæði, þar sem finna má sýnishorn af þeim tækjum sem Aflvélar selja. Aflvélar/Búvélar eru meðal annars með umboð fyrir Valtra og Massey Ferguson dráttarvélar, Pronar heyvinnutæki, vagna og vetrartæki, Odes og Goes fjórhjól og margt fleira.

Þá er öflug búvéla og varahlutadeild hjá fyrirtækinu á Selfossi en sviðsstjóri hennar er Össur Björnsson, margreyndur starfsmaður Aflvéla/Búvéla og fyrirrennara Búvéla.

Gagnheiði 35 á Selfoss. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinTveir framúrskarandi Ölfusingar tilnefndir
Næsta greinListakvöld í Listasafninu