Ómar vann Pétursbikarinn

Pétursbikarinn, árleg lendingarkeppni Flugklúbbs Selfoss, var haldinn í 31. skipti í gær, laugardag, í blíðskaparveðri.

Sigurvegarinn í ár varð Ómar Bjarnason á TF-POU með aðeins 24 refsistig. Í öðru sæti var Þorsteinn Magnússon á TF-169 með 53 refsistig og í þriðja sæti var Snæbjörn Jónsson á TF-KAO með 98 refsistig.

Keppnin var jöfn og skemmtileg og sáust mörg skemmtileg tilþrif. Mikið af gestum kom við á flugvellinum í gær, bæði akandi og fljúgandi og runnu staflarnir af nýbökuðum vöfflum með rjóma ljúflega niður.

Þessi keppni var haldin fyrst 1985 og er mikilvæg í starfi klúbbsins ár hvert. Keppnin er haldin til minningar um Pétur Sigvaldason sem var gestur á stofnfundi flugklúbbsins þann 16. maí 1974 en Pétur fórst í flugslysi tæpum þremur vikum síðar, í Svínadal í Dölum, 2. júní 1974.

Gunnar Þorvaldsson félagi í Flugklúbbi Selfoss og kona hans gáfu Pétursbikarinn til minningar um Pétur Sigvaldason árið 1985.