„Ólýsanleg tilfinning að hlaupa rauða dregilinn“

Kristín Laufey Steinadóttir frá Selfossi náði nú á dögunum öðrum besta tíma sem íslensk kona hefur náð í Ironman vegalengd, svokölluðum Járnmanni.

„Ég hafði sett stefnuna á tíma undir 11 klukkustundir en kláraði á 10:33:18 klst, þannig lokatíminn var talsvert umfram væntingar,“ segir Kristín í samtali við sunnlenska.is.

Járnmaðurinn er þríþraut þar sem keppendur synda 3,8 km og hjóla síðan 180 km og enda síðan þrautina á að hlaupa 42 km. Keppnin fór fram 30. september síðastliðinn í bænum Calella á Spáni, skammt fyrir utan Barcelona.

Snýst um að skora á sjálfan sig
„Ég keppti fyrst í þríþraut árið 2009 en tók minn fyrsta Ironman 2011. Þetta var því önnur keppnin mín í heilum IM en ég hef farið nokkra hálfa og svo styttri þríþrautarkeppnir,“ segir Kristín.

„Það er rosalega gaman að setja sér einhver svona stór markmið að stefna að í lengri tíma. Það er gríðarlegur undirbúningur og mikið af æfingum að baki og margir þættir að spá í. Fyrir mér snýst þetta að miklu leyti um að skora á sjálfa mig og sjá hvað ég get náð langt, og á sama tíma að æfa skynsamlega og þannig að það komi sem minnst niður á tíma með fjölskyldu og vinnu.“

Kristín segir að keppnin sjálf sé eins og uppskeruhátíð eftir allar erfiðu æfingarnar. „Þá kemur maður til að njóta og hafa gaman, enda finnst mér brjálæðislega skemmtilegt að keppa.“


Ljósmynd/Marathonphotos.com

Skiptir máli að sofa nóg
Að sögn Kristínar var undirbúningur fyrir keppnina langur. „Ég æfði mikið frá byrjun árs 2016 og skráði mig svo í keppnina í nóvember 2016 eftir gott keppnistímabil það árið. Var svo á stífu æfingaprógrammi frá áramótum með þessa keppni sem eitt af megin markmiðunum.“

Aðspurð segir Kristín undirbúning fyrir svona keppni vera margþættan. „Fyrir utan að æfa sund, hjól og hlaup þá reyni ég að borða hollt að minnsta kosti 80% af tímanum án þess þó að breyta neinu sérstaklega. Það er ekkert á bannlista en maður leitar í næringarríkt fæði. Einnig þarf að passa upp á að sofa nóg og það er eitthvað sem ég er alltaf að reyna að vinna í, að fara fyrr að sofa.“

„Að lokum skiptir sálræni hlutinn mjög miklu. Að fara í gegnum keppnina í huganum fyrirfram, vera búin að sjá fyrir sér alls konar aðstæður sem geta komið upp og hvernig maður ætlar að tækla þær. Ég hugsa líka ýmis hvatningarorð á erfiðum æfingum og í keppninni sjálfri.“

Þurfti að bíta á jaxlinn
„Bæði sundið (3,8 km) og 180 km hjólaleggurinn gengu mjög vel og liðu mjög hratt. Maraþonið var erfiðara en ég átti von á þar sem ég lenti í smá magavandræðum tiltölulega snemma og þá reyndi á að bíta á jaxlinn og halda einbeitingu og umfram allt hlaupa en labba ekki.

„Síðustu kílómetrarnir og sérstaklega lokametrarnir á leið í markið verða þó að teljast hápunkturinn. Ólýsanleg tilfinning að hlaupa rauða dregilinn í áttina að markinu eftir langan og strembinn dag og sjá að maður er að ná öllum markmiðum sem stefnt var að.“


Ljósmynd/Marathonphotos.com

Stuðningur og skilningur frá fjölskyldunni skiptir miklu máli
Framundan hjá Kristínu er svokallað „off-season“. „Sem þýðir að nú er ég að jafna mig eftir keppnina og engar skipulagðar æfingar á dagskrá að minnsta kosti út þessa viku. Síðan fer ég örugglega smám saman að taka inn sund og hjólaæfingar. En líka bara að leika mér á fjallahjólinu, fara í jóga og síðast en ekki síst eiga góðar stundir með fjölskyldu og vinum,“ segir Kristín og bætir því við að stuðningur og skilningur frá maka og fjölskyldu skipti miklu máli þegar maður tekur þátt í keppni sem þessari.

„Fyrir utan miklar æfingar þá flutti ég líka á árinu og skipti um vinnu þannig kannski reyni ég bara að slaka smá á núna,“ segir Kristín og brosir.

„Ég hvet sem flesta til að prófa þríþraut. Það er hægt að keppa í ýmsum vegalengdum og stystu keppnirnar eru að taka innan við klukkutíma sem ætti að vera viðráðanlegt fyrir marga,“ segir Kristín að lokum.

Fyrri greinFriðlýsing vegna stækkunar friðlandsins í Þjórsárverum undirrituð
Næsta grein„Langar að spóla áfram og komast til Rússlands núna“