Ölvir heimsmeistari fimmta árið í röð

Ölvir Karl Emilsson frá Grafarbakka varð heimsmeistari í traktorstorfæru fimmta árið í röð í dag en heimsmeistaramótið fór fram í gamla farvegi Litlu-Laxár á Flúðum.

Nokkur þúsund manns fylgdust með keppninni sem Björgunarfélagið Eyvindur og unglingadeildin Skúli standa fyrir. Að venju var keppt á gömlum traktorum undir 50 hestöflum og luku níu keppendur keppni sem var tilþrifamikil að vanda. Traktorarnir eru reyndar margir hverjir breyttir en sigurvegarinn ekur Zetor 3511, með breyttum mótor og tveimur túrbínum.

Sigurvegari fimmta skiptið í röð og í sjötta sinn alls varð Ölvir Karl og hampaði hann því Landstólpabikarnum en á eftir honum komu Helgi Jónsson og Reynir Þór Jónsson. Sigurvin Hansson sýndi glæsilegustu tilþrifin.

Mikill fjöldi er á Flúðum um helgina og meðal þess sem boðið var uppá í dag var vegleg búvélasýning í reiðhöllinni en fjöldi fólks skoðaði þróun búvélanna á sýningunni.

Fyrri greinÞrír handteknir á Flúðum
Næsta greinDregur úr rennsli Skaftár