Ölvaður á 128 km/klst hraða

Bifreið valt á Hagavegi skammt frá Mosfelli í Grímsnesi um klukkan 17 á föstudag. Einn maður var í bifreiðinni og komst af sjálfsdáðum út úr henni nokkuð lemstraður en óbrotinn.

Hann var fluttur með sjúkrabifreið á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi til frekari skoðunnar. Bifreiðin var talsvert skemmd eftir veltuna.

Lögreglan á Suðurlandi kærði ellefu ökumenn fyrir hraðakstur í síðustu viku. Einn þeirra, sem ók á 128 kílómetra hraða var að auki ölvaður. Fimm voru kærðir fyrir ölvunarakstur og tveir fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna.

Fjórar bifreiðar voru teknar úr umferð vegna þess að vátrygging var útrunnin. Við því liggur 30 þúsund króna sekt.

Fyrri greinÁ reynslulausn með hvítt duft og kannabis
Næsta greinHandtekinn eftir minniháttar líkamsárás