Ölvaður bílstjóri í Veiðivötnum

Lögreglan á Selfossi athugaði ástand um 40 ökumanna við Veiðivötn í kvöld. Einn var tekinn fyrir ölvun við akstur.

Lögreglan sinnti umferðareftirliti með þyrlusveit Landhelgisgæslunnar á TF-LÍF í kvöld. Flogið var eftir Suðurlandsvegi austur í Vík og þaðan í norður í Veiðivötn.

Langflestir ökumennirnir í Veiðivötnum voru með allt sitt á hreinu en einn reyndist vera undir áhrifum áfengis. Eftir að hafa blásið í áfengismæli var tekið blóðsýni úr manninum um borð í þyrlunni.

Þó að lögreglueftirlitið við Veiðivötn kæmi mörgum ökumönnum í opna skjöldu virtust flestir almennt ánægðir með eftirlit lögreglunnar á staðnum.