Ölvaður á 128 km/klst hraða

Bifreið valt á Hagavegi skammt frá Mosfelli í Grímsnesi um klukkan 17 á föstudag. Einn maður var í bifreiðinni og komst af sjálfsdáðum út úr henni nokkuð lemstraður en óbrotinn.

Hann var fluttur með sjúkrabifreið á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi til frekari skoðunnar. Bifreiðin var talsvert skemmd eftir veltuna.

Lögreglan á Suðurlandi kærði ellefu ökumenn fyrir hraðakstur í síðustu viku. Einn þeirra, sem ók á 128 kílómetra hraða var að auki ölvaður. Fimm voru kærðir fyrir ölvunarakstur og tveir fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna.

Fjórar bifreiðar voru teknar úr umferð vegna þess að vátrygging var útrunnin. Við því liggur 30 þúsund króna sekt.