Ólögmætt útboð kostar ríkið 250 milljónir

Ríkissjóður þarf að greiða Hópbílaleigunni á Selfossi 250 milljónir króna í skaðabætur vegna þess að Vegagerðin horfði framhjá fyrirtækinu í útboði á sérleyfisakstri á Suðurlandi og Suðurnesjum á árunum 2006 til 2008.

Útboðið fór fram árið 2005 og Hópbílaleigan vann mál sitt gegn Vegagerðinni efnislega árið 2007 í héraðsdómi og síðar í hæstarétti. Í síðustu viku dæmdi fjölskipaður héraðsdómur svo á þá leið að greiða beri fyrirtækinu bætur vegna missis hagnaðar af samningnum ásamt ríflega fjórum milljónum króna í málskostnað.

Málið á sér þá sögu að Hópbílaleigan, sem hefur tengsl í gegnum eigendahóp sinn við rútufyrirtækið G. Tyrfingsson á Selfossi, bauð lægst í aksturinn á Suðurnesjum, en Vegagerðin samdi engu að síður við Kynnisferðir. Skýring Vegagerðarinnar á þeim tíma var að Hópbílaleigan hefði ekki verið nægjanlega lengi starfrækt. Héraðsdómur tók þá skýringu ekki gilda, enda væri reynsla að baki hjá stjórnendum þess, og ætlaði fyrirtækið að notast við G. Tyrfingsson sem undirverktaka að hluta.

G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir að málið sé hjá ríkislögmanni og það sé hans að meta hvort því verði áfrýjað. „Þetta kom okkur í opna skjöldu,” segir hann.

Sjá nánar í Sunnlenska fréttablaðinu

Fyrri greinHreinn úrslitaleikur framundan
Næsta greinLögreglan á Hvolsvelli komin á Facebook