Öllu starfsfólki skólans sagt upp

Vegna endurskipulagningar og hagræðingar í rekstri hefur kirkjuráð sagt upp öllu starfsfólki Skálholtsskóla og verður starfsmannhaldið endurmetið.

Þessi ákvörðum var kynnt starfsfólki á fundi fyrr í dag en Vígslubiskupi í Skálholti og biskupsritara hefur verið falið að vinna að framkvæmd þessara skipulagsbreytinga.

Kirkjuráð hefur á undanförnum mánuðum unnið að endurskipulagningu á rekstri Skálholts og Skálholtsskóla. Lagt var mat á skipulag staðarins, stöðu vígslubiskups, rektors Skálholtsskóla og annarra sem hafa komið að stjórn og rekstri staðarins. Til þessa verks voru fengnir sérfróðir aðilar um skipulag og rekstur.

Reksturinn hefur reynst erfiður og ekki er unnt að styðja við hann með sama hætti og áður vegna niðurskurðar hjá þjóðkirkjunni. Kirkjuráð ákvað í hagræðingarskyni að stjórn Skálholts yrði lögð niður og tók kirkjuráð að nýju að sér það hlutverk. Þá var bókhald Skálholts fært til Biskupsstofu og þess farið á leit við Ríkisendurskoðun að gera fjárhagsúttekt á rekstri skólans og stendur hún enn yfir.

Í ljósi þessa ákvað kirkjuráð að draga verulega úr starfsemi skólans. Hætt verður með almennan hótel- og veitingarekstur og lögð megináhersla á sérstöðu Skálholts með sögu staðarins og kirkjuna sem þungamiðju, sem stað helgi og kyrrðar, fræðslu, menningar og tónlistarlífs.

Fyrri greinEinar með 20 ára liðinu í Noregi
Næsta greinÍslandsmótið í póker hafið