„Öll tilbúin að negla þetta“

Væb á sviðinu í St. Jakobshalle í Basel á fyrra undanúrslitakvöldinu. Ljósmynd © EBU/ Corrine Cumming

Eins og alþjóð veit þá keppir framlag Íslands í Eurovision í ár – lagið Róa með bræðrunum í VÆB – til úrslita í kvöld.

Sunnlendingar eiga sinn fulltrúa á sviðinu í St. Jakobshalle í Basel en einn af dönsurunum þremur, Baldvin Alan Thorarensen, kemur frá Hveragerði.

Langt ferðalag en mikil uppskera
Sunnlenska.is heyrði í Baldvini snemma í morgun og var hann ákaflega vel stemmdur fyrir kvöldinu.

„Það er ótrúlega góð stemning í hópnum. Það er gott veður hérna í Basel og allir í góðum gír og við öll tilbúin að negla þetta. Þetta er búið að vera svolítið langt ferðalag þannig að það er mikil uppskera og fögnuður núna. Við erum bara öll mjög spennt að stíga á svið í kvöld,“ segir Baldvin.

„Það er búið að vera svo ótrúlega gaman hvað við höfum fengið mikinn stuðning frá áhorfendum, bæði íslenskum og erlendum. Það er virkilega búið að setja mikla sól í hjartað okkar. Okkur þykir vænt um að fólk sé að fíla atriðið okkar.“

Eins og að vera krakki á jólunum
En hvernig tilfinning var það þegar nafn Íslands var tilkynnt síðastliðinn þriðjudag og atriðið komið áfram? „Oh my god, að komast áfram var bara eins og vera krakki á jólunum. Þetta var bara ein skemmtilegasta minning allra tíma. Og þvílík fagnaðarlæti. Maður bara stóð upp, maður datt niður. Við bara misstum okkur. Það var líka ógeðslega gaman af því að Albanía og Noregur komu og fögnuðu svo innilega með okkur, þannig að þetta var bara algjör veisla.“

„Það er líka svo gaman því að veðbankarnir voru ekki að spá okkur áfram. Þannig að það var magnað að sigra það og bara halda áfram að róa eins og lagið okkar snýst um. Ég myndi segja að þetta hafi örugglega verið eitt af topp fimm mómentum lífs okkar.“

„Fyrsta sem ég ætla að gera þegar ég kem aftur til Íslands er örugglega að knúsa bróður minn og fá mér íslenskt vatnsglas,“ segir Baldvin og hlær.

„Ég sendi knús og við hlökkum til að gera Ísland stolt í kvöld,“ segir Baldvin kátur að lokum.

Íslenski hópurinn á túrkíslitaða dreglinum í aðdraganda keppninnar. Baldvin Alan er lengst til vinstri. Ljósmynd © EBU/ Alma Bengtsson
Fyrri greinHeimir ráðinn skólastjóri Kvíslarskóla
Næsta greinÞrenna Adeyemo sökkti Kormáki/Hvöt